NOKKRAR STAÐREYNDIR UM ÞINGVELLI
Lega. Þingvellir eru á suðvestanverðu Íslandi,
í Árnessýslu, í 50 km fjarlægð frá
Reykjavík eftir þjóðvegi, í 46 km fjarlægð
frá Selfossi, og 82 km frá Borgarnesi eftir Uxahryggjaleið.
Hnattstaða Þingvalla er 64.5o N, 21.1o V.
Stærð Þingvalla má miða við mörk friðlýsta
svæðisins. En þau eru við Almannagjá að
vestan, Hrafnagjá og Hlíðargjá að austan,
við Þingvallavatn að sunnan og norðan við línu
frá rótum Ármannsfells í átt að
Hrafnabjörgum. Í þrengri og nákvæmari merkingu
miðast stærð Þingvalla við þinghelgi hins
forna Alþingis, en talið er víst að hún hafi
verið: frá gjábakka hinum hærri (Almannagjár)
að vestan til Flosagjár í austri, og frá Þingvallavatni
í suðri að mörkum efri og neðri Valla (Köstulum)
í norðri. Sá, sem staddur er innan þessara marka,
þarf ekki að vera í vafa um að hann er á Þingvöllum.
Lögsaga. Þingvellir eru í umdæmi sýslumannsins
í Árnessýslu, og þar með lögreglunnar
á Selfossi. En jafnframt heldur umsjónarmaður uppi gæslu.
Þingvellir eru friðlýstur helgistaður allra Íslendinga,
skv. lögum frá 7.maí, 1928. Hið friðlýsta
svæði skal vera undir vernd Alþingis og ævinlega
eign íslensku þjóðarinnar. Þingvallanefnd
er skipuð þrem alþingismönnum, og er kosin af Alþingi
eftir hverjar Alþingiskosningar. Hún hefur á hendi
yfirstjórn hins friðlýsta lands, og semur reglugerð
um meðferð þess. Þingvallanefnd má ráða
til 5 ára í senn umsjónarmann á Þingvöllum.
Hefur það jafnan verið gert, frá gildistöku laganna.
Núverandi umsjónarmaður er Heimir Steinsson. Vegakerfi.
Vegurinn frá Reykjavík liggur framhjá Kárastöðum
og Brúsastöðum, yfir Öxará vestan svæðisins,
en sveigir svo yfir Almannagjá hjá Langastíg og Leirum.
Þar er söluskáli, vítt bílastæði
og svæði fyrir svefnvagna og tjöld. Leyfi fást hjá
umsjónarmanni. Frá Leirum liggja 4 vegir aðrir: einn
norður til Ármannsfells á Uxahryggjaleið, annar austur
yfir hraunið til Suðurlands, þriðji um hraunið og
á brú að veitingahúsinu Valhöll, og loks
fjórði vegurinn suður með gjánni, á Vellina,
að Öxarárbrú og lokst við Nikulásargjá
og Peningagjá. Önnur grein þess vegar liggur austan við
Þingvelli og síðan að Valhöll yfir neðri
Öxarárbrú. Áður en komið er að Öxará
vestan gjár liggur vegarspotti út frá þjóðveginum
til hægri. Þetta er gamli bílvegurinn til Þingvalla
um brú, en hann lokast nú við Hakið og útsýniskringluna,
þar sem örnefni eru skráð. En meðfram Hakinu
liggur göngubrautin niður í Almannagjá. Þetta
er einn besti staðurinn til að skilja eftir bíl sinn, ef
ætlunin er að skoða Lögberg og Almannagjá og
ganga um þingsvæðið.
Veitingar fást í veitingahúsinu Valhöll
á Þingvöllum. Þangað fara flestir og þar
eru bílastæði nóg. Þar eru fundir og ráðstefnur
haldar, og þar er gististaður. Í Þingvallasveit
eru nú taldir færri en 10 bæir og eru, eftir skrá:
Þingvallasveit hefur lengi verið með fábyggðustu
hreppum, en landeignir Þingvallakirkju voru geysivíðáttumiklar
og eyðibýli mörg. Kirkja er á Þingvöllum
og þjónar henni núverandi umsjónarmaður,
sem er prestur. Kirkja hefur verið þar síðan á
dögum Ólafs Noregskonungs Haraldssonar, sem gaf kirkjuvið
til landsins og klukku með. En Haraldur harðráði, hálfbróðir
Ólafs, gaf hingað aðra klukku, sem lengi var hringt.
Grafreitur er á bak við kirkjuna, sem sérstaklega
er ætlaður frægum Íslendingum. Tvö skáld
eru jarðsett þar: Jónas Hallgrímsson (1807-1845)
og Einar Benediktsson (1864-1940). - Fyrir löngu var heygður á
Þingvöllum Þorleifur jarlsskáld, og er við
hann kenndur Þorleifshólmi. Þorleifshaugur hefur þó
ekki staðið þar, heldur upp við Kastalana. Ef vitað
væri, hvar Þorleifshaugur stóð, hefði það
sérstaka þýðingu, því að í
góðri heimild er sagt, að hann var skammt “norður af
Lögréttu".
Forsætisráðherra á heimilan bústað
á Þingvöllum, í sama húsi og umsjónarmaður.
LANDSLAG Útsýniskringlan á Hakinu, er við
Kárastaðastíg, þar sem bílvegur lá
áður ofan í Almannagjá, sá sem nú
er göngubraut. Á kringlunni eru sýnd öll helstu
fjöll og kennileiti. Framundan er barmur Hestagjár og mikið
þverhnípi. Helstu fjöll. Þó að nöfnin
séu mörkuð á skífuna, skulu hér nokkur
talin: Hrafnabjörg, blásvört og snarbrött,
gnæfa við austur, en norðar í röð austurfjallanna
er Tindaskagi, en syðst eru Kálfatindar. Skjaldbreið
ber við himin í norðnorðaustri. Ármannsfell
er í hánorðri, og hugðu menn, að þar byggi
góðvættur. Af honum er Ármanns saga. Endurreisn
Íslands á 19.öld hófst með tímaritinu
Ármann á Alþingi, og er þar átt við
hinn sama Ármann. Botnssúlur, kenndar við Hvalfjarðarbotn,
eru hið hæsta fjall í námunda við Þingvelli
(1095 m), en við norðvestur eru Búrfell, Kjölur og
Hlíðar. Sunnan við vatnið ber hæst Henglafjöll
til vesturs, en Grafningsfjöll austar. Ingólfsfjall eygist
fjær, en Arnarfell og Miðfell ganga fram að vatninu austaverðu.
Sandey, á miðju Þingvallavatni, er eldgígur.
Þingvallahraun taldi skáldið Jónas Hallgrímsson,
sem einnig var jarðfræðingur, vera runnið frá
fjallinu Skjaldbreið, en síðari jarðfræðingar
hafa ýmist gert að hallast frá skoðun Jónasar
eða fallast á hana. En hraunin austan Þingvallavatns (Gjábakkahraun
o. fl.) og vestur fyrir Hrafnagjá, eru komin úr gossprungu
á Tindfjallaheiði austan Hrafnabjarga. Þau eru yngri en
Þingvallahraun". (Jarðfræði Þorleifs Einarssonar,
bls 304). Þingvallavatn er stærsta “náttúrlegt"
stöðuvatn á Íslandi, 83 km2 að flatarmáli,
102 m yfir sjávarmáli og 109 m á dýpt. Það
er heimkynni murtunnar, eins hins besta fisks. Á botni vatnsins
er kísilgúr. Gígeyjan Sandey er nær miðju
vatni, en suður frá henni er Nesjaey. Öxará rennur
frá Myrkavatni við Súlur í Þingvallavatn,
en úr því vatni við Kaldárhöfða
rennur Sogið. Á landnámstíð var neðsti
hluti Öxarár vestar en nú, en fornmenn veittu henni
í Almannagjá, og myndaðist þá Öxarárfoss,
sem mörgum hefur þótt auka á náttúrufegurð
staðarins. Öxará dregur nafn sitt af öxi nokkurri
sem Ketilbjörn gamli er sagður hafa týnt niður um vök
á árísnum, þegar hann fór til landnáms
síns að Mosfelli. En það var áður en Alþing
var sett. Eftir að Öxará hefur runnið nokkurn spöl
um Almannagjá, fellur hún undir brúna, einnig í
dálitlum fossi, og niður á Vellina og dreifir sér
um þá í kvíslum. Brúin forna stóð
þar sem bugur verður á ánni framundan kirkjugarðinum.
Almannagjá er ein sú náttúrusmíð,
sem gefur Þingvöllum mestan svip. Hún teygir sig frá
rótum Ármannsfells um Þingvöll og suður með
vatni að vestanverðu, alls um 8 km á lengd. Vestri barmur
gjárinnar, “gjábakki hinn hærri", er miklu hærri
en austurbakkinn, en í Hrafnagjá, sem liggur samsíða
henni austan til í hraununum, er austurbakkinn hærri.
“Þingvallasléttan er sigdalur, og nemur sigið um
30 metrum". (Jarðfræði Þorleifs Einarssonar).
Í jarðfallinu, sem er framhald þessa sigdals til suðurs,
er Þingvallavatn. Gjárnar í Þingvallahrauni eru
margar, og bera fleiri en eitt nafn, eftir því hvar að
þeim er komið.Þannig heitir framhald Almannagjár,
hjá Leirum: Hvannagjá; þar suður af: Snóka
- og enn sunnar: Stekkjargjá. En fyrir sunnan Hakið heitir hún
Hestagjá. Flosagjá og Nikulásargjá eru vel
þekktar, og er hin síðarnefnda kölluð Peningagjá
vegna þess siðar að kasta í hana peningum, einkum
af brúnni. Nikulás sýslumaður Magnússon
var á Alþingi 1742, og fannst lík hans í gjánni,
og hefur oft verið kallað sjálfsvíg - en “Lafrents
amtmaður og fleiri mætir menn töldu það óvíst"
(Ísl. æviskrár). Háagjá er austur á
hrauni. - Í öllum gjám í hrauninu “er kristalstært
bergvatn, 3-4 stiga heitt sumar og vetur. Í aftakafrostum leggur
frostgufu mikla upp úr gjánum, en vatnið frýs
aldrei". (Guðmundur Davíðsson: Leiðsögn um
Þingvelli, s.17, útg.1944). Öxarárhólmi
var frægur staður á þjóðveldisöld
og síðar, í bókmennt-unum mest þó
af viðureign þeirra Gunnlaugs og Hrafns sem deildu um Helgu hina
fögru. Er það talin síðasta hólmganga
um deilumál á Íslandi. Hólminn er ekki lengur
til, sá sem þá var. Öxará breytti um farvegi
í aldanna rás. Landslagið, sem varð til þarna
árið 1789 gaf henni líka enn betri skilyrði til að
kvíslast um vellina.- Þegar á 16. öld er áin
farin að renna kringum Lögréttu, sem áður var
öll austan ár,og leiddi þetta að lokum til þess
að hún var endurbyggð (minnkuð) í hólma,
um 1594, og síðast upp undir Hallinum, á 18. öld.
JARÐMYNDUN Eins og álitlegur hluti Íslands alls,
er Þingvallasvæðið myndað við samleik jökla
og jarðelda á ísaldaskeiðinu, og mest þó
á yngsta hluta þess. Það er þannig mjög
ung jarðmyndun, jafnvel á íslenskan mælikvarða,
og er á þeirri samhverfu jarðlaga, sem liggur milli Súlnamyndunar
að vestan og Hreppamyndunar að austan. Það sem einkennir
þetta svæði er í fyrsta lagi móbergsfjöllin,
mynduð við eldgos undir jökulskjöldum ísaldatímabilsins
(Hrafnabjörg, Kálfstindar, Ármannsfell); í öðru
lagi grágrýtisdyngjur, myndaðar á hlýskeiðum
milli ísalda (Lyngdalsheiði), en Skjaldbreiður eftir ísöld).
Í þriðja lagi er landið sorfið og mótað
af stórjöklum ísaldar; í fjórða lagi
er svæðið víða þakið hraunum, runnum
eftir ísaldarlok, og hið fimmta aðaleinkenni er gjárnar
og landsigið, sem alveg sérstaklega setja svip sinn á
umhverfi þingstaðarins sjálfs.
Landrek. Gjárnar miklu á Þingvallasvæðinu
bera ekki aðeins vott um það landsig, sem þar hefur
orðið - síðast seig þar árið 1789,
og þá um 60 cm að talið er - heldur einnig um gliðnun
landsins milli austurs og vesturs. En hún er talin stafa af landreki,
sem verður í báðar áttir út frá
Atlanshafshryggnum. Mætti þá líta á Almannagjá
og Hrafnagjá, sem vitnisburð þess að “Ísland
sé að slitna sundur", og þó öllu heldur
að færa sig út í báðar áttir
frá hinum tveim aðaljarðeldabeltum um miðbik landsins.
En Þingvallasvæðið er á vestara beltinu. Aldur
Þingvallasvæðisins. Fræg eru orð þau sem
sögð voru á Þingvöllum árið 1000,
þegar deilt var um trúarbrögð, og heiðnir menn
hugðu guða reiði valda jarðeldi, sem þá var
að koma upp suður í Ölfusi. “Hverju reiddust goðin,
þá er hraunið rann, það er vér nú
stöndum á?" sagði Snorri goði, og hefur hann gert
sér grein fyrir því, að hraunið sem hann stóð
á var sama eðlis og nýrunnin hraun. Jarðsöguleg
yfirsýn á Þingvöllum byrjar með Snorra goða.
Nú telja jarðfræðingar hraunin þarna runnin
eftir íslandarlok og vera a.m.k. að nokkru leyti frá
fjallinu Skjaldbreið sem renndi frá sér hraunum um leið
og það var að myndast.