Frægustu goðar:
Þorsteinn Ingólfsson í Reykjavík var fyrsti allsherjargoði Íslendinga og vafalítið einn af forgöngumönnum alþingisstofnunar um 930. Áður munn hann hafa haldið Kjalarnesþing eða átt hlut að því, og nýuppgrafnar menjar um þinghald við Elliðavatn (Þingnes) munu einnig vera frá hans dögum. Þorsteinn var sonur Ingólfs landnámsmanns í Reykjavík.
Hrafn Hængsson var fyrsti lögsögumaður Alþingis og sennilega goði. Þorkell máni var allsherjargoði, lögsögumaður og “spakur maður mjög" (Íslendingabók). Studdi tímatalsendurbót. Lét bera sig í sólargeisla í banasótt sinni. Þorgeir Ljósvetningur samdi frið milli manna á Alþingi árið 1000, með þeir orðum að “ef vér slítum lögin, þá munum vér ok slíta friðinn". Virðist einsætt að þessi goði muni verða mikill friðarvinur.
Snorri goði. Einn af áhrifamestu mönnum á Alþingi árið 1000 og lengi eftir það. Við hann er kennd Snorrabúð, nálægt Lögbergi. Vitmaður, en kaldráður. “Snorri var vitrastur maður kallaður á Íslandi, þeirra er eigi voru forspáir. (Njála).
Skapti Þóroddsson var lögsögumaður í 27 ár og goðorðsmaður. Samtímamaður Snorra goða og mikill áhrifamaður.
Einar Þveræingur. Goði. Hafnaði tilraun Ólafs digra Noregskonungs til að ná Grímsey á sitt vald og seilast til áhrifa á Íslandi. Frábær vitmaður og framsýnastur goðanna á sinni tíð. Höfundur vísunnar: “Trautt erumk lausa at láta....Grímsey".
Sæmundur fróði. Goði. Studdi tíundarkröfu kaþólsku kirkjunnar, svo að hún komst fyrr á hér á landi en í nálægum löndum, en bjó svo um hnútana, að goðar fengu völd yfir hluta af fjármagni því, sem þar safnaðist saman. Kom hann þannig fótum undir kirkjugoðaveldið. Fyrsti íslenski sagnfræðingurinn (á latínu). Frábær fræðimaður.
Ari fróði. Líklega goði. Frömuður íslensks ritmáls og fyrstur til að rita íslenska sagnfræði á bók. Rakti ætt sína til Yngvifreys.
Jón Loftsson í Odda. Goði, og mestur áhrifamaður á landinu á sinni tíð. Vel menntaður á íslenska vísu og evrópska. Varði yfirráð goðanna á kirkjustöðum.(“Heyra má ég erkibiskups boðskap, en ráðinn er eg að hafa hann að engu" - Oddaverja þáttur).
Sturla Þórðarson í Hvammi (Hvamm-Sturla). Goði. Fulltrúi íslenskrar stefnu í landsmálum á 12. öld. Ættfaðir Sturlunganna.
Snorri Sturluson. Goði. Lögsögumaður. Sturlungur. Beitti hyggindum í baráttu sinni gegn yfirgangi erlends konungsvalds á Íslandi. Ritsnillingur. Vitsnillingur. Goðfræðingur. Yfirburða sagnfræðingur og sagnaritari. “Íslendingurinn Snorri Sturluson hefur haft meiri áhrif á sögu Noregs en nokkur einstakur Norðmaður fyrr og síðar." (Svale Solheim, prófessor). Fyrir áhrif frá Herdísi Bersadóttur ritaði Snorri Egilssögu, Vegna Guðrúnar Hreinsdóttur mun hann hafa ritað Grænlendinga þátt. Áhrifa Hallveigar Ormsdóttur mun gæta í Heimskringlu. - Snorra var um margar aldir vanþakkað af Íslendingum, þangað til Norðmenn höfðu hafið nafn hans og verk til vegs.
Þórður kakali Sighvatsson. Goði. Sturlungur. Kom félaus og fylgislaus til Íslands haustið 1242. Efti fáein ár réði hann yfir öllu landinu. Fór vel með vald sitt, en þó varð mannskæðasti bardagi aldarinnar af hans völdum (Haugsnessfundur). Ritaði “rullu" þá um viðskipti goðaættanna, sem kann að hafa orðið frumdrög að Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar (í Sturlungu).
Brandur Kolbeinsson. Goði. Ásbirningur. Vinsæll í héraði (Skagafirði). Fagur maður og bjartur. Féll á Haugsnesfundi.
Sturla Sighvatsson. Goði. Fyrstur manna til að gera sér grein fyrir gildi rita Snorra Sturlusonar, föðurbróður síns. Reyndi, eftir fyrirmyndum erlendis frá, að ná yfirráðum á öllu Íslandi, en það samrýmdist ekki eðli goðaveldisins.
Sturla Þórðarson síðari. Goði. Lögsögumaður. Skáld. Sagnfræðingur. Hélt lengst allra goðanna uppi virkri baráttu gegn því að Noregskonungar næðu völdum á Íslandi.
Gissur Þorvaldsson. Valdamaður mikill á Sturlungaöld. Afsalaði sér íslenskri goðatign fyrir norska jarlstign, enda var þá skammt til loka goðaveldisins. Á Hjaltlandi voru til sagnir um Guizer Jarl, sem kemur af hafi og gengur til þings. Ekki hefur verið rannsakað hvort þessar sögur eiga við Gissur Þorvaldsson, en ef svo er, þá hefur það verið haustið 1258.
Þorvarður Þórarinsson frá Valþjófsstað hefur verið nefndur “Síðasti goðinn". Gekk síðastur íslenskra valdamanna á hönd Noregskonungi (1264). Mikill áhrifamaður á síðasta hluta 13. aldar. Baráttumaður gegn yfirráða- stefnu kirkjunnar. Þorvarður er einn þeirra sem giskað hefur verið á að hafi verið höfundur Njáls sögu.

Frægar gyðjur: Áhrifa gyðjanna hefur sýnilega gætt víða á fyrstu öld goðaveldisins.
Freygerður gyðja í Hvammi í Dölum, “gall of heiðnum stalla" (söng heiðin trúarljóð yfir altari) segir í vísu, sem varðveist hefur.
Steinvör hofgyðja varðveitti höfuðhofið í Vopnafirði.
Þórdís spákona bjó í Spákonufelli á Skagaströnd, og til hennar sóttu sjálfir Vatnsdælir traust. Má telja víst að hún hafi varðveitt hof.
Steinunn Refsdóttir frá Hofgörðum á Snæfellsnesi, goðmálug mjög, andmælti Þangbrandi greifasyni frá Saxlandi, skörulegast allra Íslendinga.
Halldóra Gunnsteinsdóttir, kona Glúms goða á Þverá, var mikil mannúðarkona og kann að hafa varðveitt hofið á Þverá. Sjá má á Landnámu og víðar, að mikið hefur þótt koma til hennar fram eftir öldum. Eftir kristnitöku hvarf embætti hofgyðjunnar úr sögunni. Goðar gátu menn verið sem valdamenn, eftir sem áður, en um leið og hof voru lögð niður, hvarf einnig þörfin fyrir hofgyðjur. Úr hópi fjölda úrvalskvenna á næstu öldum skulu nokkrar taldar:
Guðrún Ósvífursdóttir var mikill atkvæðamaður, fjórgift, og fyrirmynd kvenskörunga lengi síðan.
Þuríður Snorradóttir var mikil fræðikona um 1100, “margspök og óljúgfróð", segir Ari fróði um hana. Maður hennar var Gunnlaugur Steinþórsson á Eyri.
Guðný Böðvarsdóttir frá Görðum á Akranesi var skartkona mikil, gáfukona og skörungur. Ættmóðir margra Sturlunga. Þegar Sturla, bóndi hennar, lagði einn á eftir flokki ræningja, eggjaði Guðný heimamenn til fylgdar við hann, og dugðu þeir þá vel.
Hallveig Ormsdóttir af Oddaverja ætt var síðari kona Snorra Sturlusonar (“helmingarfélag" var með þeim), og hefur hún óefað haft mikil áhrif á ritverk hans. Til er skjal sem vottar að Snorri og Hallveig gefa prestinum í Reykholti messuhökul, og virðist þar vera jafnræði með þeim hjónum.